Íslensku menntaverðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum 2. nóvember 2022. Átthagafræði í Grunnskóla Snæfellsbæjar var eitt þeirra verkefna sem tilnefnt var í flokknum “Framúrskarandi þróunarverkefni” og hlaut Íslensku menntaverðlaunin í þeim flokki. Hilmar Már Arason skólastjóri veitti verðlaununum viðtöku fyrir hönd skólans úr hendi Sigurðar Inga Jóhannssonar Innviðaráðherra. Það er mikill heiður fyrir skólann að hljóta þessi verðlaun sem eru okkur hvatning til að halda okkar góða starfi áfram og efla það enn frekar.
Átthagafræði er þróunarverkefni þar sem unnið er með fræðslu um grenndarsamfélagið þar sem lykilþættirnir eru náttúra, umhverfi og saga bæjarins. Áhersla er lögð á vettvangsferðir, kynningar, viðtöl, upplýsingaöflun, miðlun, tjáningu, samvinnu, sköpun og upplifun. Þá fá nemendur tækifæri til að kynnast samfélagi nútímans og þeim möguleikum sem þar búa til framtíðar.
Hugmyndin að Átthagafræðinni kviknaði 2009 þegar unnið var að skólastefnu Grunnskóla Snæfellsbæjar með aðkomu skólafólks og bæjarbúa. Í framhaldi af því tók við fagleg vinna innan skólans sem varð til þess að Átthagafræðin leit dagsins ljós .
Skólinn fékk styrk úr Vonarsjóði árið 2009 til að vinna að gerð námskrár og tilraunaútgáfa hennar kom út í janúar 2010. Námskráin hefur síðan verið í stöðugri þróun. Við skólann starfar þróunarteymi sem heldur utan um námskrána ásamt skipulagi og framvindu verkefna auk þess að hafa umsjón með heimasíðu verkefnisins. Heimasíðan atthagar.is var formlega opnuð 30. október 2019 og kynntu nemendur síðuna að viðstöddum Forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni og fleiri gestum.
Námskráin er fjölbreytt og fyrir alla árganga grunnskólans og gefur möguleika á ýmis konar nálgun og uppbroti í kennslu en verkefni nemenda eru tengd hæfniviðmiðum aðalnámskrá grunnskóla. Í vinnu nemenda leggjum við áherslu á upplifun þeirra og jákvæð samskipti við fólk og fyrirtæki í bæjarfélaginu. Þannig byggjum við upp virk tengsl við samfélagið um leið og nemendur fá að kynnast því með fjölbreyttum hætti. Skólinn hefur alltaf mætt mikilli velvild hjá íbúum, félagasamtökum og fyrirtækjum í Snæfellsbæ þegar leitað er til þeirra með fræðslu í skólanum eða að taka á móti nemendahópum.
Í upphafi ársins 2021 var tekin ákvörðun um formlegt samstarf milli skólans og Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls í verkefnum sem tengjast þjóðgarðinum. Á þeim vettvangi sér skólinn fram á sóknarfæri í áframhaldandi þróun fyrir Átthagafræðina.
Markmið með Átthagafræðinni er að við lok skólagöngu í Grunnskóla Snæfellsbæjar hafi nemendur fengið góða þekkingu og upplifun á nærumhverfi sínu og kynnst vinnubrögðum sem nýtast þeim vel í framtíðinni, jafnt í frekara námi eða með þátttöku í atvinnulífinu.
Comments