top of page
GRUNNSKÓLI SNÆFELLSBÆJAR

ÁTTHAGAFRÆÐI

Árið 2009 var unnið að skólastefnu Snæfellsbæjar með aðkomu bæjarbúa. í kjölfar þeirrar vinnu kviknaði áhugi meðal starfsfólks Grunnskóla Snæfellsbæjar á aukinni áherslu á nám nemenda um heimabyggð sína. Í framhaldinu var skipuð nefnd sem vann að því að innleiða námsgreinina átthagafræði í grunnskólanum.

 

Ákveðið var að námið gæfi möguleika á uppbroti hefðbundins náms, með sérstaka áherslu á upplifun sem lykilþátt í náminu. Haustið 2009 fékk skólinn styrk úr Vonarsjóði til að búa til námskrá í átthagafræði og tilraunaútgáfa kom út í janúar 2010.

 

Átthagafræði er fræðsla um grenndarsamfélagið þar sem lykilþættir eru náttúra, umhverfi og saga bæjarfélagsins. Námsgreinin snýst ekki síður um að nemendur kynnist samfélagi nútímans og þeim möguleikum sem þar búa til framtíðar. Í átthagafræði er áhersla lögð á vettvangsferðir, upplifun, kynningar, viðtöl, miðlun, tjáningu og sköpun.

 

Lögð er áhersla á að nemendur upplifi eigið samfélag en á þann hátt er stuðlað að jákvæðum samskiptum og samstarfi við einstaklinga, félagasamtök, fyrirtæki og stofnanir í Snæfellsbæ. Með þessu móti byggir Grunnskóli Snæfellsbæjar upp virk tengsl við nærsamfélagið og tengir nám nemenda veruleikanum í bæjarfélaginu og eykur um leið fjölbreytni í námi.

 

Við lok grunnskólagöngu er markmiðið að námið í átthagafræði hafi skilað nemendum okkar góðri þekkingu á heimabyggð sinni og kennt þeim vinnubrögð sem munu nýtast þeim vel í framtíðinni, hvort sem er í frekara námi eða þátttöku í atvinnulífi.

 

Námskrá í átthagafræði Grunnskóla Snæfellsbæjar er í tveimur hlutum, annars vegar fyrir starfsstöðvarnar norðan Fróðárheiðar, Ólafsvík og Hellissand og hins vegar fyrir starfsstöðina sunnan heiðar, Lýsudeild. Í námskránni eru markmið hvers bekkjar sett fram og viðfangsefni skilgreind. Námskráin er fjölbreytt og gefur möguleika á ólíkum útfærslum í kennslu.

 

Í Lýsudeild eru unnin verkefni úr átthaganámskrá starfsstöðvarinnar en þau eru miðuð við samkennslu og staðhætti, valin eftir samsetningu hópa og eru mismunandi á milli ára. Mikið er lagt upp úr að upplifa og njóta umhverfis og náttúru. Í stærri ferðum er samvinna við starfsstöðina í Ólafsvík. Námskrá Lýsudeildar er í endurskoðun og verður birt síðar. 

 

Átthagafræðiteymi

Grunnskóla Snæfellsbæjar

TEYMIÐ

Hlutverk teymisins er að halda utan um námskrá og þróun átthagafræðinnar og sjá um heimasíðuna. Í teyminu eru kennarar frá starfstöðvunum á Hellissandi og í Ólafsvík.

Í teyminu sitja Svanborg Tryggvadóttir, Adela Marcela Turloiu, Guðrún Jenný Sigurðardóttir og Helga Guðrún Sigurðardóttir. Netfang atthagar@gsnb.is .

contact
bottom of page