top of page

Nemendur hafa unnið í ýmsum skemmtilegum verkefnum í átthagafræði undanfarnar vikur. Þar má nefna hafnarverkefni um hafnirnar í Snæfellsbæ sem nemendur í 8. bekk unnu að fyrr í vetur. Því miður hafði slæmt veður hamlandi áhrif á útivist á þeim tíma en Björn Arnalds hafnarstjóri tók vel á móti bekknum og fræddi þau um ýmislegt. Hér er hægt að skoða það sem nemendur settu fram um höfnina á Arnarstapa, í Rifi .



Nemendur í 2. bekk nýttu góða veðrið til að fara út að tína rusl. Það er eitt af verkefnum þeirra í átthagafræðinni að hreinsa Höskuldsána og þeir hafa gert það reglulega frá því í haust. Nemendur vilja hafa snyrtilegt í kringum sig og tíndu ruslið samviskulega. Næst ætla þeir að fá að veiða síli og hlakka svo sannarlega til.


Hin árlega Bókaveisla 10. bekkjar fór fram á Klifi 8. desember síðastliðinn. Þetta er í 18. sinn sem nemendur standa að kynningu á rithöfundum Bókaveislunnar, en viðburðurinn var fyrst haldinn árið 2002 og þá að frumkvæði Framfarafélags Ólafsvíkur. Frá upphafi hefur sú hefð haldist að bjóða rithöfundum í súpu og spjall með nemendum áður en farið er inn á Klif.

Rithöfundarnir Benný Sif Ísleifsdóttir, Gerður Kristný Guðjónsdóttir, Jón Kalman Stefánsson, Rut Guðnadóttir og Sigríður Hagalín Björnsdóttir lásu upp úr nýútkomnum bókum sínum. Nemendur 10. bekkjar sömdu og fluttu skemmtilegar kynningar á höfundunum og veitingar voru í höndum foreldra til fjáröflunar fyrir útskriftarferð nemenda í vor.

Bókaveislan er eitt af átthagafræðiverkefnum 10. bekkjar þar sem áhersla er lögð á að tengja saman skólann og samfélagið en í haust hlaut skólinn Íslensku menntaverðlaunin fyrir verkefnið sem framúrskarandi þróunarverkefni.

Bókaveislan tókst vel að vanda og stóðu nemendur sig með prýði. Við viljum þakka þeim sem komu til að njóta kvöldsins með okkur en Bókaveislan er orðin hluti af aðventu hjá íbúum Snæfellsbæjar.





© 2018 Grunnskóli Snæfellsbæjar

bottom of page