top of page
Search
hugrune

Bókaveisla 10. bekkjar

Hin árlega Bókaveisla 10. bekkjar fór fram á Klifi 8. desember síðastliðinn. Þetta er í 18. sinn sem nemendur standa að kynningu á rithöfundum Bókaveislunnar, en viðburðurinn var fyrst haldinn árið 2002 og þá að frumkvæði Framfarafélags Ólafsvíkur. Frá upphafi hefur sú hefð haldist að bjóða rithöfundum í súpu og spjall með nemendum áður en farið er inn á Klif.

Rithöfundarnir Benný Sif Ísleifsdóttir, Gerður Kristný Guðjónsdóttir, Jón Kalman Stefánsson, Rut Guðnadóttir og Sigríður Hagalín Björnsdóttir lásu upp úr nýútkomnum bókum sínum. Nemendur 10. bekkjar sömdu og fluttu skemmtilegar kynningar á höfundunum og veitingar voru í höndum foreldra til fjáröflunar fyrir útskriftarferð nemenda í vor.

Bókaveislan er eitt af átthagafræðiverkefnum 10. bekkjar þar sem áhersla er lögð á að tengja saman skólann og samfélagið en í haust hlaut skólinn Íslensku menntaverðlaunin fyrir verkefnið sem framúrskarandi þróunarverkefni.

Bókaveislan tókst vel að vanda og stóðu nemendur sig með prýði. Við viljum þakka þeim sem komu til að njóta kvöldsins með okkur en Bókaveislan er orðin hluti af aðventu hjá íbúum Snæfellsbæjar.





0 views0 comments

Comments


bottom of page